• Heim
  • Fréttir
  • Ræktunarmerar
  • Unghross
  • Aðrir hestar
  • Hundarnir
    • Vista
    • Farnir félagar >
      • Dís
      • Fluga
  • Myndasöfn
  • Tenglar
  • English
  • Gestabók

Reiðhestar fjölskyldunnar

Hestamennska, hestaferðir og almennar útreiðar skipa stærstan hluta af lífi okkar og fjölskyldunnar og höfum við því eignast ágætis fjölda af reiðhestum sem við erum búin að eiga árum saman og okkur þykir ofboðslega vænt um. 

Gosi frá Arakoti

Picture
F: Oddur frá Selfossi
M: Spóla frá Laugardælum
Eigandi: Silja

Ég er búin að eiga þennan hest síðan hann var 5 vetra gamall, ég eyddi sumrinu sem vinnukona á Blesastöðum og kom heim með hund og hest. Hann hefur fengið að upplifa ýmislegt með mér, öll mín klúður og alla mína sigra í þjálfun og er ennþá uppáhalds hesturinn minn. Hann er óhræddur við allt og fer allt og gerir allt sem ég bið hann um að gera. Þennan hest mun ég aldrei tíma að láta frá mér og ef ég mun eignast annan svona hest í framtíðinni, þá verð ég sko ánægð. Hann er búinn að standa sig vel sem keppnishestur, með ágætis árangur á mótum í gegnum, sem ferðahestur er hann einstakur í sinni röð, nautsterkur, ferðmikill, viljugur og með gífurlega gott þol og til almennra útreiða er hann bara yndislegur, viljugur, þjáll og botnlaus á tölti og brokki.

 Jörfa-Gráni

Picture
Ættir hans eru ekki alveg þekktar en hann er frá bænum Jörfa og hann er búinn að tilheyra fjölskyldunni frá 4 vetra aldri. Hann var upphaflega keyptur sem barnahestur fyrir mig (Silju) og hefur hann þjónað því hlutverki vel. Hann er einstaklega dyntóttur, gáfaður og uppátækjasamur hestur og hann er núna á þrítugsaldri en er nánast plága með hinum hestunum því hann leikur sér svo mikið við þá að það eru allir aðrir hestar í húsinu hárlausir á síðunum eftir ótæpilega leikgleði hans. Á sínum tíma var honum kennt að prjóna á skipun og kom það sér ágætlega þar sem hann var stjarna söluherferðar hjá Prins LU kexinu. Það má eiginlega segja að hann sé upphaf hagaljómahrossanna minna enda hefur loðað við mig síðan að eiga einungis ljósa og litfagra hesta.

Sokki

Picture
Sokki er búin að tilheyra okkur í mörg ár og er hann einn af þremur elstu hestunum í hópnum. Hann er ákveðin mótsögn í sjálfusér því hann er faxlaus en hárprúður, kvikur en þægur, ljónstyggur en ljúfur þegar búið er að ná honum, ekkert merkilega stór hestur en manni finnst maður alltaf hafa mikið fyrir framan sig þegar maður er á baki. Ég er búin að renna í gegnum myndirnar mínar og ég á því miður nánast engar myndir af honum betri en þessa en það verður bætt úr því seinna. Hann er reiðhestur móður minnar, og var það ákveðinn prófsteinn þegar ég var barn, að geta riðið Sokka hennar mömmu, þá fyrst var maður að verða góður reiðmaður. Hann þurfti reyndar að sætta sig við að vera dreginn á ýmsa vetrarleika og ýmis mót og stóð hann sig alltaf ágætlega, en hann nýtur sín best sem reiðhestur og í hestaferðum. Þar er sko gott að geta gripið til þess að leggja á hann Sokka í góðri, en fyrst þarf samt að ná honum og það getur sko verið vandaverk.

Rispa frá Mykjunesi

Picture
Faðir : Vinur frá Kotlaugum
Móðir : Rauðka frá Gufunesi

Rispa er í eigu móður minnar og er hennar allra uppáhalds hross og eiga þær einstaklega vel saman. Hún er einstaklega skapmikil, viljug og dugleg hryssa með botnlausa ferð á iðamjúku tölti. Hún fullkomnar þrenninguna okkar af öldungunum og er sjálf komin á þrítugsaldurinn og fær að njóta ellinnar í faðmi náttúrunnar í sveitinni héðan af við að ala upp og siða til ungviðið.

Hannarr 

Picture
Faðir: Piltur frá Sperðli
Móðir: Hilda frá Sandhólaferju

Hannarr er annar tveim fyrstu hestunum fæddum móður minni og er í hennar eigu enn í dag. Hann er sterkur og duglegur hestur, ferðmikill á tölti og brokki og hressilega klárlengur. Við erum búin að eiga þónokkur önnur afkvæmi Hildu og hann er merkjanlega bestur af þeim, en það er spurning hvort Stjarna nái að ná af honum þeim titlinum. Hann og Gráni eru miklir mátar og verður yfirleitt verst úti með síðunagið og á vorin er hann yfirleitt með afar frumlega klippingu ala Gráni. Það sama gildir víst um hann og gildir um Sokka að við fyrsta tækifæri verður bætt úr því að fá betri mynd af honum, en hann er þó allavegana brúni hesturinn á myndinni.

Myrkur frá Blesastöðum

Picture
Faðir: Kraflar frá Miðsitju
Móðir: Kolbrún frá Brattholti

Myrkur var keyptur ungur og ógeltur útaf útlitinu nánast einu saman. Hann er afar myndarlegur hestur, brúnn og faxmikill. Hann er reiðhestur föður míns og verður það vonandi árum saman.

Stjarna

Picture
Faðir: Krákur frá Blesastöðum 1A
Móðir: Hilda frá Sandhólaferju

Stjarna er ung og spennandi hryssa, síðasta afkvæmi móður sinnar og mögulegur arftaki hennar. Hún er úr fyrsta árgangnum undan Krák og það verður mjög gaman að sjá hvernig hún á eftir að koma út en hestaflensan kom á frekar slæmum tíma og áframhaldandi tamningu og þjálfun á henni varð frestað fram á næsta vetur og verður vonandi stefnt á að sýna hana þegar hún er tilbúin.

www.fotaburdur.com | Valdimar Ómarsson & Silja Unnarsdóttir |  Denmark | Copyright © 2011-2014 fotaburdur.com | All rights reserved.